Hvernig á að setja upp WordPress vefsíðu

WordPress

Bergur Ingi

WordPress er þekkt sem vinsælasta vefumsjónarkerfi (e. Content Management System eða CMS) í heiminum. 59,7% af öllum CMS síðum eru byggðar á WordPress, sem er yfir 30% af öllum síðum sem finnast á netinu. Helsta ástæðan fyrir því er vegna þess að WordPress er auðvelt í uppsetningu sem gerir öllum auðvelt að búa til vefsíðu.

Allir helstu hýsingaraðilar á Íslandi og erlendis leyfa þér að setja upp WordPress með örfáum smellum. Að setja upp vefsíðu með WordPress er í flestum kringumstæðum einfalt ferli sem tekur innan við fimm mínútur.

Í þessari færslu er markmið mitt að sýna byrjendum hvernig við setjum upp WordPress á einfaldan hátt.

Ég mun sýna þér hvernig við setjum upp WordPress síðu með aðeins einum smell, á hýsingu hjá 1984.is. Auðvitað eru til mun fleyri hýsingaraðilar bæði á Íslandi og erlendis, en til að gera auðvelt verk ekki of flókið, þá látum við þessa hýsingu duga í bili. Kanski bæti ég svo við öðrum hýsingum seinna, ef ég er í stuði.

Að lokum, fyrir ykkur sem eruð ekki alveg strax tilbúin til að kaupa hýsingu og lén mun ég sýna hvernig á að setja WordPress upp beint á tölvuna með forriti sem heytir Local og hægt er að setja það upp á Windows, Mac og Linux. Ég nota Local mjög mikið bæði til að fullklára síður og líka þegar ég vill bara henda upp sýðu og skoða nýtt þema (e. Theme) eða nýja viðbót (e. Plugin).

Burtséð frá því hvort þig langi til að setja upp síðu fyrir þig eða fyrirtækið þitt, þá mun þessi færsla hjálpa þér að komast af stað.

Setja upp WordPress á hýsingu hjá 1984.is

Fyrsta skrefið er auðvitað að kaupa sér hýsingu. En þegar það er klárt, þá ferðu á forsíðuna hjá 1984.is og smellir á Stjórnborð.

Þegar þú hefur klárað að skrá þig inn, þá lendirðu á yfirlitssíðu. Þarna sérðu hýsinguna þína og til þess að fara inn á hýsinguna þá smellirðu á bláa takkann Stjórnborð hýsingar (e. Goto Control Panel).

Hérna sérðu stjórnborðið og alla þá möguleika sem það hefur. En það eina sem þarf að gera til að setja upp WordPress vefsíðu, er að smella á takkann sem segir Áfram nú og eftir ekki meira en 1 mínútu, er glæný og brakandi WordPress síða komin á hýsinguna þína.

Þegar síðan er klár, þá er ekkert annað í stöðunni en að smella á takkann Stjórna WordPress og þá opnast nýr flipi inn á Stjórnborð (e. Dashboard) síðunnar þinnar.

Og núna hefst fjörið við að finna Þema (e. Theme) og Viðbætur (e. Plugins) til að gera síðuna þína að flottustu síðunni á netinu.

Setja upp WordPress á Local

Fyrsta skrefið er auðvitað að fara á síðuna hjá Local og niðurhala forritinu.

Þegar forritið er komið á tölvuna, þá er ekki eftir neinu að bíða en smella bara á Create a New Site.

Því næst veljum við eitthvað flott nafn á nýju vefsíðuna okkar og smellum á Continue

Okkur er gefinn valkostur um hvaða umhverfi við viljum hafa fyrir nýju síðuna okkar, en best er að velja bara Preferred og smella síðan á Continue.

Síðasta skrefið sem við þurfum að taka er að stofna notanda fyrir síðuna og smella svo á Add Site.

Þá er síðan okkar klár og við getum hafist handa við að velja nýtt Þema (e. Theme) og Viðbætur (e.Plugins).

Til hamingju

Þér hefur vonandi tekist að setja upp nýja WordPress síðu á hýsinguna þína hjá 1984.is eða á Local forritið.

Ef þessi færsla hjálpaði þér, þá mátt þú endilega hjálpa mér og deila þessari færslu. Ef ekki, þá mátt þú endilega hafa samband og benda mér á það sem hefði mátt fara betur.